Æviágrip

Alistair Macintyre er fæddur á Bretlandi, en hefur verið íslenskur ríkisborgari frá árinu 2009.  Hann er menntaður frá listaháskólunum í Cardiff, Wales og Helsinki.

Síðan Alistair flutti til Íslands hefur hann tekið þátt í ýmsum listviðburðum  hér á landi og haldið einkasýningar víða, m.a. á Kjarvalsstöðum, í Ketilhúsinu og í Gerðasafni.  Verk hans eru í eigu ýmissa opinbera aðila og einkasafna á Íslandi, t.a.m. Listasafns Reykjavíkur, Landsbanka Íslands og Íslandsbanka, sem og safna í Bretlandi og Ameríku.

Um Verkin

Myndverk eða þrykk semliggja einhversstaðará mörkum höggmynda-og teiknilistar; unnin úr ísog járni, sem smám saman bráðna ofan í pappírinn. Við bráðnunina falla út efni sem minna helst á jarðvegsleifar eða steingervinga mótaða af tíma og lofttæmi. Ryðlituð og blæbirgðarík, en stundumsvört og sums staðar blá.

Áferðaþykku verkin bera sterkan svip af ágangi íslenskra náttúruafla og stöðugum umbreytingum landsins; flóð ánna yfir eyrar og sanda, hopandi skriðjökla og jökulöldur, breytingar jarðskorpu og bergrunns. Þau endurspegla landið sem gefur frá sér allt efni og sýnir.  Byggingarlist náttúrunnar er rakin í sundur. Vafningurinn brotnar niður og endurfæðist aftur með tímanum. Breyting verður á efninu sem sundrast, umbreytist og hleðst að lokum upp í yfirborð pappírsins. 

Í listaverkunum verður maður áþreifanlega var við þá óafturkallanlegu þróun að innviðir jarðar og náttúru eru smám saman að brotna niður; jörðin hlýnar og jökul-kápan bráðnar, þynnist og hopar. Leifar þess sem einu sinni var verða eftir á yfirborði pappírsins, varðveitast þar og öðlast nýtt líf.



UMSAGNIR

ÁÞREIFANLEGUR HVERFULLEIKI
Vanishing Point

Anna Jóa myndlistarrýnir
Morgunblaðið, 5. september 2006

ÍS, JÁRN og pappír eru efniviður breska listamannsins Alistair Macintyre á sýningu hans "Vanishing Point" í Galleríi Turpentine í Ingólfsstræti. Yfirskrift sýningarinnar vísar til skurðpunkts, eða hvarfpunktsfjarvíddarlína en getur einnig átt við um eitthvað sem fer hverfandi en sú aðferð Macintyre að blanda saman járni og ís og láta "bráðna" á pappír felur í sér ákveðin "hvörf" efna.

Myndirnar á sýningunni eru því afrakstur ferlis sem er samruni tilviljunar og ætlunarverks listamannsins. Útkoman er í flestum tilvikum óhlutbundin; járnið sest til og myndar fjölbreytileg mynstur á bylgjóttum pappírnum.  Gott dæmi er skemmtilegt tígulmynstur í verkinu Grid Reference II þar sem járnformin virðast "fljóta" um. Hvítt undirlagið - pappírinn - skín í gegn og myndar einnig skýrt afmörkuð form sem blekkja augað því þau virðast hafa stokkið í forgrunninn og skapað nýja vídd í verkunum. 

Í verkinu An Absence of Field myndast slík spenna: Járninu hefur verið komið þannig fyrir í ísnum að við bráðnunina myndaðist nokkurs konar fjarvíddarmynstur, líkt og skálínur sem hverfa inn í rými. Pappírinn eða auðu reitirnir, sem í raun eru í bakgrunni, virka eins og fljúgandi hvít form inni í þessu rými og gera það jafnframt að verkum að "fjarvíddin" virðast ætla að leysast upp.

Í myndum Macintyre skapast sterk tilfinning fyrir tíma í tengslum við tilurð þeirra. Það er sem verkið Double Exposure sé enn í mótun en þar minnir mynstrið á lífrænt efni, svo sem skófir á steini. Þar er um skírskotun í náttúruna að ræða en Macintyre mun hafa unnið talsvert með landfræði og landakort. Stöðug umbreyting hins jarðfræðilega unga lands hér á sér vissa samsvörun í umbreytingunni í myndum hans og koma jarðskorpuhreyfingar og hræringar undir jöklum þar upp í hugann. Macintyre miðlar sköpunarkrafti slíkrar ummyndunar sjónrænt á einfaldan og leikandi hátt í myndum sem jafnframt eru gæddar átökum og spennu. 

Í litla salnum innst í galleríinu er myndasería þar sem sjást tákn sem notuð eru við kortagerð og landmælingar - og sem minnir á hið manngerða í náttúrunni. Táknin eru þó býsna fornleg og ryðguð að sjá og við það að leysast upp líkt og annað tákn mannsins, "fingrafar" í mynd í öðrum sal sem skírskotar í senn til hverfular tilvistar hans á jörðinni og tilhneigingar hans, allt frá tímum hellamyndanna góðu, til að setja mark sitt á hana.

 

MYNDLIST - Íslensk grafík, Hafnarhúsinu
Hörund pappírsins

Dr. Halldór Björn Runólfsson myndlistarrýnir og listfræðingur
Morgunblaðið, 27. febrúar 2000

GRAVITY Skins kallar Alistair Macintyre sýningu sína á stórum grafíkmyndum, sem hann vinnur úr ís og járni. Hann fergir pappírinn með járnbökkum fylltum ís og smám saman ryðgar málmurinn og ísinn blandast pappírnum. Hinar tilviljanakenndu afleiðingar sitja eftir á pappírnum sem prentað far, ryðbrúnt í öllum mögulegum blæbrigðum.

Macintyre, sem dvelst hér langdvölum, segist hafa notað ís um árabil vegna þeirra eiginleika hans að breytast úr þrívíðum massa í tvívíðan vökva. Eyðingarmáttur íssins í tengslum við járnið, sem brotnar smám saman niður í ryðduft, er eins konar spegilmynd þeirra náttúrulegu krafta sem eru alls staðar í kringum okkur. Tíminn og umbreytingaröflin vinna verk sitt hægt en örugglega. Pappírinn verður eins konar vitnisburður um þessa virkni, því á hann skráist öll þessi framvinda.

Um leið verður verkið eins konar tákn um það hvernig allir massar brotna niður á endanum og verða tvívíðir. Og listamaðurinn bendir einmitt á það hvernig pappírinn verður eins og sjóndeildarhringurinn þar sem allt er skráð í flötinn eins og tilviljanakenndar teikningar.

Í innra herberginu hefur Macintyre bætt bláum olíulit ofan á ísinn.

Þannig líður og bíður uns, að lokum, liturinn berst í pappírinn og litar hann. Olían drekkst ofan í pappírinn, en skærblár liturinn liggur ofan á pappírnum líkt og skærleitir flekkir af litadufti. Hér er eitthvað sem óneitanlega minnir á Yves heitinn Klein og bláa litinn hans, því svipuð, þykk og mött áferð myndast í yfirborði pappírsins í bland við ryðið. Sum þessara rismiklu verka mynda massífa heild eins og skildir, enda bera þau nafn með rentu, Aegis, sem voru skildir eða verndarvængir Seifs og Pallas Aþenu. Önnur verk hafa safnað í sig ísvatninu líkt og segl í rigningu svo að taumar liggja út um allt frá miðjunni. Þau verða eins og andstæða skjaldamyndanna, og minna einna helst á splundrandi Medúsuhöfuð.

Krafturinn og splundrandi hendingin í grafíkmyndum Alistair Macintyre er vægast sagt hrífandi. Stærð myndanna, sem hæglega ná tveim metrum, ýtir undir upplifunina. Listamanninum tekst nefnilega að færa eitthvað af óhöndlanlegum eiginleikum náttúrunnar beint inn í myndir sínar og það nýtur sín ekki síst vegna stærðar verkanna. Hversu lítið sem Macintyre ræður för í sjálfu ferlinu hefur hann einstaklega sterka tilfinningu fyrir heildaráhrifunum. Þannig er útkoman í stórum dráttum af hans völdum þótt ísinn og járnið fari með aðalhlutverkin í þessu frábæra sjónarspili.